13. desember 2022

Opið bréf til þingmanna: 167. mál LEIGUBIFREIÐAAKSTUR

Leigubifreiðaakstur 167. mál
Opið bréf til þingmanna

Reykjavík, 12. desember 2022

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra (B.Í.L.S.) biður alþingismenn að veita eftirfarandi athygli:
Stétt leigubifreiðastjóra hefur lagt fram umsagnir sínar um frumvarp um leigubifreiðaakstur og bent á mjög mikilvægar staðreyndir varðandi afleiðingar sambærilegra lagabreytinga í öðrum löndum. Á hinum Norðurlöndunum hefur þjónusta skerts til mikilla muna í kjölfar afregluvæðingar leigubifreiðaaksturs þvert á það sem haldið var fram.
Upphaf þessa máls má rekja til ársins 2017 þegar Eftirlitsstofnun EFTA gekkst fyrir frumkvæðisathugun á lagaumhverfi leigubifreiða hér á landi og taldi í áliti sínu að ólögmætar hindranir væru í vegi inngöngu í stétt leigubifreiðastjóra. Í kjölfarið var stofnaður starfshópur sem skyldi gera tillögur að endurskoðun laga um leigubifreiðaakstur. Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra átti ekki sæti í þeim starfshópi. Þar af leiðandi naut Bandalagið ekki áheyrnar í starfshópnum fyrir hönd leigubifreiðastjóra. Útkoman stefndi að afregluvæðingu leigubifreiðaaksturs á Íslandi.
Afregluvæðing leigubifreiðaaksturs tók gildi í Finnlandi árið 2018 og 2020 í Noregi. Bæði ríkin vinna nú að endurbótum á lögunum vegna þess hversu hörmulega hefur til tekist. Ekki er fyrirséð hvenær þeirri vinnu muni ljúka.
Þrátt fyrir skýrar og málefnalegar umsagnir B.Í.L.S. við þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram um afregluvæðinguna, hefur athugasemdum stéttar leigubifreiðastjóra verið haldið utan umfjöllunar og ekki veitt athygli í nefndarálitum. Hins vegar hefur meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar fylgt eftir umsögnum frá aðilum viðskiptalífsins, svo sem Viðskiptaráði Íslands og Samtökum atvinnulífsins, hvort tveggja samtök sem leigubifreiðastjórar standa utan. Hagsmunir atvinnurekenda og viðskiptalífsins eru algjörlega látnir ráða för, en sjónarmið stéttarfélags okkar sem og Alþýðusambands Íslands látin lönd og leið.
Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra biður þingmenn að fresta lagabreytingum um leigubifreiðaakstur þar til útséð er með reynslu Norðmanna og hvaða lagfæringar verða gerðar á löggjöfinni þar í landi. Íslenska ríkið hefur sömu stöðu og hið norska gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ætti íslenska ríkið því að taka mið af þeirri útkomu sem þar mun líta dagsins ljós. Mikilvægt er að við endurtökum ekki mistök frænda okkar í Noregi. Í reynd er ekki verið að ræða um lagfæringar á regluverki heldur allsherjar afregluvæðingu greinarinnar og það án alls samráðs við stétt leigubifreiðastjóra.

Verst þykir starfandi stétt að lagaleg aðkoma stéttarfélags að kjörum leigubifreiðastjóra, skuli vera þurrkuð út úr lögunum. Lítur Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra svo á að beinlínis hafi verið brotið á leigubifreiðastjórum við undirbúning þessa frumvarps með því að í engu hefur verið gætt samráðs við stéttarfélög þeirra.
Hvað snýr að almenningi, eru afleiðingarnar nú þegar þekktar af reynslu Finna, Svía og Norðmanna: hröð fjölgun í stéttinni, undanskot frá skatti, stór hluti tekna greinarinnar flyst úr landi, óöryggi viðskiptavina, ójöfn dreifing þjónustunnar, hækkandi verð umfram verðbólgu og ólögmæt samkeppni. Þá lifa leigubifreiðastjórar ekki af starfi sínu og því er þjónustunni sinnt með félagslegum undirboðum.
Við blasir hvílíkt feigðarflan það var að hlusta ekki á athugasemdir leigubifreiðastjóra. Öllum má ljóst vera að frumvarpið mun hafa í för með sér óbætanlegan skaða á mikilvægum samgönguinnviðum samfara því sem grafið verður undan þjónustu við almenning og grafið undan heilbrigðum vinnumarkaði.

f.h. stjórnar Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra
formaður
Daníel O. Einarsson

Augnablik